Fræðsla og starfsþróun skiptir máli

Skilar fjárfesting í fræðslu og starfsþróun tilætluðum árangri?


Grein birt í Viðskiptablaðinu 11. mars. 2005

Á síðasta áratug hafa íslensk fyrirtæki og stofnanir í auknum mæli fjárfest í þjálfun og þróun starfsmanna sinna. Til þess að öðlast samkeppnisforskot á markaði og laga sig að örum breytingum samtímans er mikilvægt að hafa ávallt á að skipa sem hæfustu starfsfólki með þá þekkingu, færni og viðhorf sem til þarf. Vel upplýstur starfsmaður laðar að sér viðskiptavini og eykur tryggð þeirra og ánægju. Starfsfólk sem fær tækifæri til að bæta við sig þekkingu og færni á vinnustað er oft ánægðara í starfi og starfsmannavelta því minni.

Af hverju fræðsla og starfsþróun?
Meginmarkmið með þjálfun og starfsþróun í fyrirtækjum og stofnunum er að bæta frammistöðu starfsmanna og skipulagsheildar. Ef raunverulega á að nýta fræðslu og starfsþróun sem áhrifaríkt tæki til að bæta frammistöðu svo ná megi fram stefnu og markmiðum er mikilvægt að spyrja eftirfarandi spurninga:
- Eru fræðslu- og þjálfunarþarfir greindar út frá stefnu og markmiðum fyritækis/stofnunar?
- Er lögð áhersla á þá meginhæfni sem þarf í starfseminni?
- Er skoðaðar orsakir ófullnægjandi frammistöðu?
- Bætir þjálfun og starfsþróunin frammistöðu starfsmanna og árangur fyrirtækis/stofnunar?


Þarfagreining
Í könnun sem Bára Sigurðardóttir gerði í tengslum við MS ritgerð sína við Háskóla Íslands 2004, kemur fram að 60% þeirra fyrirtækja og stofnana sem tóku þátt í könnuninni nota sjaldan eða aldrei þarfagreiningu til að finna orsök ófullnægjandi frammistöðu en 20% notuðu þarfagreiningu oftast eða alltaf. Því má velta þeirri spurningu fyrir sér hvort það fjármagn og sá tími sem fer í þjálfun sé ávallt nýtt á sem árangursríkastan hátt.

Með greiningu á þörfum út frá markmiðum skipulagsheildar verður fræðsla og starfsþróun stefnumiðuð og árangursrík. Greining kemur í veg fyrir að fjárfest sé í þjálfun sem ekki er þörf á. Til eru margar leiðir til að greina þjálfunar- og fræðsluþarfir á fljótvirkan og skilvirkan hátt og finna lausnir til úrbóta. Bilið á milli æskilegrar frammistöðu/árangurs og núverandi frammistöðu/árangurs er skilgreint og skoðað hver er meginhæfni fyrirtækis, hvar er þörf á þjálfun, hver þarf á þjálfun að halda og hvers konar þjálfun og fræðsla skilar bestum árangri. Við greiningu kemur einnig í ljós hvort ófullnægjandi frammistaða á rætur að rekja til skorts á þekkingu og færni eða hvort um aðrar hindranir er að ræða sem ekki verður endilega rutt úr vegi með fræðslu og þjálfun en þarfnast annarra úrræða. Stjórnendur eru lykilaðilar í greiningunni enda þekkja þeir stefnu og markmið rekstursins og frammistöðu starfsmanna sinna best.


Þarfir lítilla fyrirtækja
Stærstur hluti íslenskra fyrirtækja eru lítil og með fáa starfsmenn. Þessi fyrirtæki hafa sjaldnast starfsfólk sem sinnir starfsmannamálum sérstaklega eins og stærri fyrirtæki og stofnanir sem hafa eigin starfsþróunar- og fræðsludeildir. Námskeiðsframboð utan fyrirtækis getur því haft áhrif á í hverju er þjálfað en svarar ekki alltaf þeirri þörf sem til staðar er og getur auk þess verið mjög kostnaðarsamt. Ef þarfir eru skoðaðar er líklegt að hægt sé að finna ýmsar lausnir bæði innanhúss og utan sem skila betri árangri og oft með minni tilkostnaði.

Greining á þörfum eykur líkur á því að sú fjárfesting sem lögð er í fræðslu og starfsþróun skili sér í bættum árangri skipulagsheildar.